miðvikudagur, 4. maí 2011

Frábærar hugmyndir stjórnvalda

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 4. maí 2011:

Í liðinni viku kynntu stjórnvöld hugmyndir sínar um að leggja 10 milljarða í eflingu almenningssamgangna á komandi árum. Ætlunin er að fá sveitarfélögin til að leggja einnig fram fjármagn og að með þessu átaki verði hægt að gera samgöngur „greiðari, hagkvæmari og sjálfbærari“ eins og segir í tilkynningu á vef Innanríkisráðuneytisins. Af sama tilefni kynnti ráðuneytið tillögur starfshóps sem settur var á fót til að móta helstu áherslur. Þar er lykilatriðið eftirfarandi:  „Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkosts í samgöngum“ (Innanríkisráðuneytið 2011).
Ferðir og flutningar eru nú annar stærsti útgjaldaliður heimilanna og rekstur einkabílsins snertir pyngju landsmanna sem aldrei fyrr. Skipulag höfuðborgarsvæðisins hefur til þessa  miðað að þörfum einkabílsins á meðan aðrir kostir í samgöngum hafa fengið minna vægi. En hugarfarsbreyting er að verða meðal almennings í þessum efnum. Nú vilja flestir bæta almenningssamgöngur, minnka umferð einkabíla og bæta göngu-og hjólastíga (Könnun á ferðavenjum: Sumar 2010).
Hafnarfjörður er á jaðri höfuðborgarsvæðisins og íbúar nálgast 27 þúsund. Í Hafnarfirði er ekki aðeins íbúabyggð heldur fjölbreytt atvinnustarfssemi. Tekjur sveitarfélagsins af atvinnuhúsnæði eru meiri heldur en af íbúðahúsnæði, sem sýnir hversu umfangsmikil starsemin er. Fjöldi íbúa á höfuðborgarsvæðinu starfar í bænum og í því samhengi eru samgöngur þýðingarmiklar. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerir sér grein fyrir mikilvægi bæjarins og leggur áherslu á þýðingu samgöngukerfisins fyrir mannlíf og atvinnulíf í borginni.
Í desember síðastliðnum, samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar einróma að setja á fót starfshóp um bættar hjólreiðasamgöngur í bænum. Tilgangurinn er að koma til móts við þann aukna fjölda sem nú kýs að nota reiðhjól sem samgöngutæki. Bærinn hefur sett sér það markmið að verða í fararbroddi sveitarfélaga sem bjóða upp á hjólreiðar sem raunverulegan kost í samgöngum. Með því móti telur bæjarstjórnin  sig hafa stigið mikilvægt skref í átt að fjölbreyttu samgöngumynstri og hvetur önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama.
Það er full ástæða til að lýsa ánægju með frumkvæði og Hafnfirðingar eru reiðubúnir til þátttöku en  leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld sýni frumkvæði um samráð og samstöðu sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli. Samgöngur eru ekki einkamál sveitarfélaganna heldur hagsmunamál höfuðborgarbúa hvar sem þeir eru í sveit settir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli