Ég er búin að prjóna núna í 3 ár og þetta er eitt skemmtilegasta áhugamál sem ég hef átt, fyrir utan pólitík auðvitað.
Ég veit ekki hvað ég er búin að prjóna margar peysur, vettlinga og húfur á allt og alla í kringum mig.
Ég elska að prjóna og gefa þeim sem mér þykir vænt um, finnst þetta vera frábær leið til að sýna öðrum hvað ég elska þá mikið. Ég gæti aldrei prjónað eftir ,,pöntun" - þetta verður að koma frá mér, frá hjartanu og þetta verður að vera gjöf.
Ég hef reynt nú í tvígang að þykja vænt um sjálfa mig og prjónað á mig peysur og ég verð að segja, þær eru báðar fínar en samt eitthvað misklukkaðar. Önnur er úr æðislegu garni sem heitir Bariloche og er algjörlega í mínum litum - jarðlitunum. Yrjótt peysa sem ég prjónaði eftir ,,Freyju" uppskriftinni hennar Ragnheiðar Eiríks, opin að framan með þremur hnappagötum.
Ég er samt ekki að fíla mig í henni....
Ég prjónaði nú síðast kaðlapeysu í fyrsta skiptið, peysa sem hægt er að finna í fyrstu Prjónaperlubókinni, úr tvöföldum plötulopa á prjóna nr 8. Létt og fín.
Hún gerir mig feita(ri) og er alltaf að detta niður axlirnar, aðeins of stór.
Mig langar í ullarpeysu en ég finn ekki munstrið, finn ekki peysuna eða litina. Ég er algjörlega hugmyndarlaus og tóm þegar kemur að sjálfri mér.
Kannski á maður ekkert að prjóna á sjálfan sig, kannski á maður bara að kaupa sér peysurnar sínar.
Hvað finnst ykkur?
Hannaðu þína eigin peysu Magga þú getur það klárlega. Ertu að tala um síða eða stutta?
SvaraEyðaAmma gerði eina síða á mig fyrir 2 árum og hún var bara eftir hugmynd, hún var steingrá með svona ljósgráu áttblaðamunstri yfir brjóstið..mjög töff..