Grein sem birtist í Fjarðarpóstinum 5.maí 2011
Óhætt er að segja að vorið sé ekki að flýta sér þetta árið og er biðin orðin óþreyjufull eftir sólinni. Það þýðir þó ekki að kvarta og tími til komin að láta hendur standa fram úr ermum og skella sér í vorverkin. Eins og undanfarið ár munu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar keyra um bæinn og sækja garðúrgang og koma þannig til móts við íbúa sem vilja hafa garðinn sinn hreinan, sér og öðrum íbúum bæjarins til yndisauka. En bærin gerir meira en það til að leggja sitt af mörkum.
Hafnarfjarðarbær kaupir þjónustu af verktaka sem sópar götur og gangstíga tvisvar á ári, í maí og í september. Þetta er dýr þjónusta og samstarf við íbúa þarf að vera virkt svo að vel takist til. Óskað er eftir að bílum sé ekki lagt á götunum á vissum dögum svo sóparabílinn komist vel að öllum köntum þar sem sandur safnast helst saman. Einnig má hvetja þá íbúa sem eru með sand í innkeyrslum að passa uppá það að sandurinn fari ekki yfir á gangstéttar eða útá götu þar sem það getur valdið hættum fyrir gangandi og hjólandi.
Vorverkin þurfa ekki að vera íþyngjandi – þvert á móti. Myndast hefur hefð í mörgum götum og hverfum bæjarins þar sem íbúar hafa tekið sig saman dreift álaginu og notið samveru. Þeir hafa sett upp hanskana og aðstoðað hvort annað við að klippa tré og hreinsa garða, sópa götur og endað á að grillað saman eftir skemmtilega vinnudag. Þetta er frábært framtak sem skilar sér í einstaklega góðum hverfisbrag og fallegum götum. Ég vil hvetja alla til að taka af skarið í sínu nágrenni og taka sig saman um vorverkin og eiga saman góðar stundir.
Vorhreinsunin stendur yfir vikuna 9.-13. maí og skora ég á alla þá sem vettlingi geta valdið að horfa út fyrir sinn rann þegar kemur að hreinsun bæjarins okkar. Margt smátt gerir eitt stórt og okkur munar ekki um það að taka upp rusl þar sem við finnum það, sópa í burtu glerbrotum á hjólastígum eða færa bílana okkar þegar sóparinn kemur í hverfið. Tökum höndum saman og gerum fallegan bæ enn betri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli