mánudagur, 30. maí 2011

Fyrsta kaðlapeysan

Ég lagði í það að prjóna kaðlapeysu. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig það var gert en svo mundi ég eftir youtube og bingó - ég áttaði mig hvað þetta var ekkert mál.
Maður þarf samt að vera þolinmóður og þrátt fyrir að vera búin með 10 cm af búknum þá fannst mér ekkert vera að gerast og ég vera að gera tóma vitleysu - en svo sér maður það, þetta er að gerast - KAÐLAR!

Ég prjónaði þessa æðislegu peysu eftir uppskrift úr Prjónaperlur - prjónað frá grasrótinni. Uppskrift frá Guðrúnu Axelsdóttur.

En eftir að hafa þvegið hana þá var hún of stór, datt of mikið niður axlirnar, var of mikil vinna fyrir mig að vera í henni. Þá benti maðurinn minn á eina mjög hávaxna vinkonu mína sem peysan yrði sniðin á og það reyndist rétt. Hún er æðisleg í henni og hún á henni.

Ég er byrjuð á annarri fyrir mig, alveg eins, verður tekin meira saman yfir axlirnar og í ögn öðruvísi yrjóttu. Meira hvítt og meiri brúnn :)

En ég er hrikalega stolt af þessari, finnst hún æðisleg á henni Bryndísi minni, finnst ykkur það ekki?

miðvikudagur, 18. maí 2011

Prjónagræjur

Það þekkja það eflaust margir sem fá ,,dellur" fyrir einhverju að það er svo gaman að ,,græja" sig upp. Maður þarf ekki endilega að taka það dýrasta heldur er gaman að eiga fínar græjur.Það er ekkert öðruvísi með prjónagræjur og t.d veiðigræjur, útivistargræjur eða bílagræjur.

Ég elska bambusprjóna og pantaði mér geðveika slíka frá Kína ásamt vinkonu minni og komu þeir í geðveikugrænu silki prjónaveski með ísaumuðum fjólubláaum fiðrildum. Ég get ekki hætt að handleika prjónaveskið mitt með prjónunum í og ég elska að prjóna með þessum prjónum. My precious.

Ég keypti líka Boyle hringprjónasett fyrir 2 árum síðan. Álprjónar sem maður skrúfar á snúrur. Kemur í leðurveski. Það er ágætt að eiga þetta sett en ég skal alveg viðurkenna að ef ég á bara gömlu góðu gráu í sömu stærð, nota ég þá frekar. Leiðist alveg svakalega að vera alltaf að skrúfa þetta á og af og svo skrúfast þetta oft af í prjónaskapnum og veldur miklum pirring þegar maður er komin á gott skrið.

Fyrir gömlu góðu prjónana mína þá keypti ég hrikalega sæta tösku í Tiger, svona litla skjalatösku í gulum og grænum litum sem rúma alla prjónana og vel það. Lýtur mjög vel út á borði eða í hillu.

Undir garnið finnst mér nauðsynlegt að eiga renndar litríkar plasttöskur úr Söstrene Grene í hinum ýmsum stærðum. Ég er með eina stærstu undir allt heila klappið en á svo eina minnstu undir það verkefni sem er í gangi þá stundina. Svona ef maður vill grípa það með sér á flakk, nota tímann til að prjóna.

Prjónamerkin frá Fjölsmiðjunni eru úr tröllaleir og perlum. Ótrúlega falleg merki sem ég get ekki fengið nóg af. Er farin að vanta sárlega fleiri í settið mitt.

Draumurinn er að eiga þetta prjónasett í svona viðarkassa og að eiga allt þá meina ég allt í þessari línu. Þetta er Rollsins að mínu mati, sjúklega fallegt á að líta, úr við, mjög gott að prjóna með þetta, beitt og draumur minn. Einn daginn....einn daginn.....þegar ég verð rík :)

þriðjudagur, 10. maí 2011

Leitin af ullarpeysunni

Ég er búin að prjóna núna í 3 ár og þetta er eitt skemmtilegasta áhugamál sem ég hef átt, fyrir utan pólitík auðvitað.

Ég veit ekki hvað ég er búin að prjóna margar peysur, vettlinga og húfur á allt og alla í kringum mig.
Ég elska að prjóna og gefa þeim sem mér þykir vænt um, finnst þetta vera frábær leið til að sýna öðrum hvað ég elska þá mikið. Ég gæti aldrei prjónað eftir ,,pöntun" - þetta verður að koma frá mér, frá hjartanu og þetta verður að vera gjöf.

Ég hef reynt nú í tvígang að þykja vænt um sjálfa mig og prjónað á mig peysur og ég verð að segja, þær eru báðar fínar en samt eitthvað misklukkaðar. Önnur er úr æðislegu garni sem heitir Bariloche og er algjörlega í mínum litum - jarðlitunum. Yrjótt peysa sem ég prjónaði eftir ,,Freyju" uppskriftinni hennar Ragnheiðar Eiríks, opin að framan með þremur hnappagötum.
Ég er samt ekki að fíla mig í henni....

Ég prjónaði nú síðast kaðlapeysu í fyrsta skiptið, peysa sem hægt er að finna í fyrstu Prjónaperlubókinni, úr tvöföldum plötulopa á prjóna nr 8. Létt og fín.

Hún gerir mig feita(ri) og er alltaf að detta niður axlirnar, aðeins of stór.

Mig langar í ullarpeysu en ég finn ekki munstrið, finn ekki peysuna eða litina. Ég er algjörlega hugmyndarlaus og tóm þegar kemur að sjálfri mér.

Kannski á maður ekkert að prjóna á sjálfan sig, kannski á maður bara að kaupa sér peysurnar sínar.

Hvað finnst ykkur?

föstudagur, 6. maí 2011

Vorverkin

Grein sem birtist í Fjarðarpóstinum 5.maí 2011
Óhætt er að segja að vorið sé ekki að flýta sér þetta árið og er biðin orðin óþreyjufull eftir sólinni. Það þýðir þó ekki að kvarta og tími til komin að láta hendur standa fram úr ermum og skella sér í vorverkin. Eins og undanfarið ár munu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar keyra um bæinn og sækja garðúrgang og koma þannig til móts við íbúa sem vilja hafa garðinn sinn hreinan, sér og öðrum íbúum bæjarins til yndisauka. En bærin gerir meira en það til að leggja sitt af mörkum.
Hafnarfjarðarbær kaupir þjónustu af verktaka sem sópar götur og gangstíga tvisvar á ári, í maí og í september. Þetta er dýr þjónusta og samstarf við íbúa þarf að vera virkt svo að vel takist til. Óskað er eftir að bílum sé ekki lagt á götunum á vissum dögum svo sóparabílinn komist vel að öllum köntum þar sem sandur safnast helst saman. Einnig má hvetja þá íbúa sem eru með sand í innkeyrslum að passa uppá það að sandurinn fari ekki yfir á gangstéttar eða útá götu þar sem það getur valdið hættum fyrir gangandi og hjólandi.
Vorverkin þurfa ekki að vera íþyngjandi – þvert á móti. Myndast hefur hefð í mörgum götum og hverfum bæjarins þar sem íbúar hafa tekið sig saman dreift álaginu og notið samveru. Þeir hafa sett upp hanskana og aðstoðað hvort annað við að klippa tré og hreinsa garða, sópa götur og endað á að grillað saman eftir skemmtilega vinnudag. Þetta er frábært framtak sem skilar sér í einstaklega góðum hverfisbrag og fallegum götum. Ég vil hvetja alla til að taka af skarið í sínu nágrenni og taka sig saman um vorverkin og eiga saman góðar stundir.
Vorhreinsunin stendur yfir vikuna 9.-13. maí og skora ég á  alla þá sem vettlingi geta valdið að horfa út fyrir sinn rann þegar kemur að hreinsun bæjarins okkar. Margt smátt gerir eitt stórt og okkur munar ekki um það að taka upp rusl þar sem við finnum það, sópa í  burtu glerbrotum á hjólastígum eða færa bílana okkar þegar sóparinn kemur í hverfið. Tökum höndum saman og gerum fallegan bæ enn betri.

miðvikudagur, 4. maí 2011

Uppáhalds prjónasíðan mín

Ég er prjónaperla, ótrúlega stolt prjónaperla.

Erla vinkona mín hefur gefið út tvær prjónabækur - Prjónaperlur - prjónað frá grasrótinni sem eru æðislegar bækur sem ég er endalaust að glugga í, prjóna uppúr eða læra af. Við sem höfum verið með uppskriftir í bókunum þeirra fáum að bera titilinn ,,Prjónaperla". Ég var með ,,ástarhúfu-uppskrift" í fyrstu bókinni, sló í gegn þó ég segi sjálf frá ;)

Svo eru þær með æðislegar síðu sem er mjög virk á http://www.midjan.is/ og er linkurinn þeirra hér:
http://prjonaperlur.midjan.is/

Erla er í námi í Ástralíu þessi misserinn og því kannski ekki prjónandi mikið en Halldóra frænka hennar er óstöðvandi.

Allir prjónaunnendur þurfa að eiga þessar bækur og vera virkir gestir á síðunni þeirra :)

Frábærar hugmyndir stjórnvalda

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 4. maí 2011:

Í liðinni viku kynntu stjórnvöld hugmyndir sínar um að leggja 10 milljarða í eflingu almenningssamgangna á komandi árum. Ætlunin er að fá sveitarfélögin til að leggja einnig fram fjármagn og að með þessu átaki verði hægt að gera samgöngur „greiðari, hagkvæmari og sjálfbærari“ eins og segir í tilkynningu á vef Innanríkisráðuneytisins. Af sama tilefni kynnti ráðuneytið tillögur starfshóps sem settur var á fót til að móta helstu áherslur. Þar er lykilatriðið eftirfarandi:  „Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkosts í samgöngum“ (Innanríkisráðuneytið 2011).
Ferðir og flutningar eru nú annar stærsti útgjaldaliður heimilanna og rekstur einkabílsins snertir pyngju landsmanna sem aldrei fyrr. Skipulag höfuðborgarsvæðisins hefur til þessa  miðað að þörfum einkabílsins á meðan aðrir kostir í samgöngum hafa fengið minna vægi. En hugarfarsbreyting er að verða meðal almennings í þessum efnum. Nú vilja flestir bæta almenningssamgöngur, minnka umferð einkabíla og bæta göngu-og hjólastíga (Könnun á ferðavenjum: Sumar 2010).
Hafnarfjörður er á jaðri höfuðborgarsvæðisins og íbúar nálgast 27 þúsund. Í Hafnarfirði er ekki aðeins íbúabyggð heldur fjölbreytt atvinnustarfssemi. Tekjur sveitarfélagsins af atvinnuhúsnæði eru meiri heldur en af íbúðahúsnæði, sem sýnir hversu umfangsmikil starsemin er. Fjöldi íbúa á höfuðborgarsvæðinu starfar í bænum og í því samhengi eru samgöngur þýðingarmiklar. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar gerir sér grein fyrir mikilvægi bæjarins og leggur áherslu á þýðingu samgöngukerfisins fyrir mannlíf og atvinnulíf í borginni.
Í desember síðastliðnum, samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar einróma að setja á fót starfshóp um bættar hjólreiðasamgöngur í bænum. Tilgangurinn er að koma til móts við þann aukna fjölda sem nú kýs að nota reiðhjól sem samgöngutæki. Bærinn hefur sett sér það markmið að verða í fararbroddi sveitarfélaga sem bjóða upp á hjólreiðar sem raunverulegan kost í samgöngum. Með því móti telur bæjarstjórnin  sig hafa stigið mikilvægt skref í átt að fjölbreyttu samgöngumynstri og hvetur önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama.
Það er full ástæða til að lýsa ánægju með frumkvæði og Hafnfirðingar eru reiðubúnir til þátttöku en  leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld sýni frumkvæði um samráð og samstöðu sveitarfélaganna sem hlut eiga að máli. Samgöngur eru ekki einkamál sveitarfélaganna heldur hagsmunamál höfuðborgarbúa hvar sem þeir eru í sveit settir.

mánudagur, 2. maí 2011

Slétt og brugðið

Ég hef aldrei verið mikið fyrir glingur, er voða ,,plain jane" þegar að skarti og klæðnaði kemur.
En þegar ég sá þessa skartgripalínu, Slétt og brugðið, hjá henni Fríðu á Strandgötunni í Hafnarfirði þá féll ég í stafi.
Ég fékk hring í jólagjöf frá eiginmanninum. Finnst þetta smart og ekki skemmir hvaðan áhrifin og munstrið kemur. Mig vantar eyrnalokkana.....hint hint Davíð minn!
Það er æðislegt að prjóna með svona á fingrunum, mæli með þessu - getið skoðað meira hér: http://www.fridaskart.is/slett/